Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Giggle and hoot, wohoo

Hæ, hæ.

Ég er búin að vera með eitthvert leiðinda kvef; hálsbólgu og hita. Ég er betri í dag en í gær svo þetta fer líklega að verða búið, eða vonandi. Seinasta föstudag var rosalega hlýtt og það var ekki gaman að vera í svitabaði útaf pest og of miklum hita úti. Það var samt ágætur dagur; ég smakkaði alvöru Calzoni í fyrsta skipti sem var mjög gott, hihi!

Það er búið að vera leiðindaveður seinustu tvo daga; mikil rigning. Það kom fram í fréttum að um helgina, eða á 48 klst, myndi rigna jafnmikið og gerist vanalega yfir heilan mánuð! Þannig þið getið ímyndað ykkur hvað er búið að rigna mikið.

Seinasta fimmtudag fór ég á safn sem heitir ,,Melbourne Museum" þar sem maður getur skoðað margt sniðugt. Þetta er mjög flott safn á nokkrum hæðum. Ég byrjaði á að skoða risaeðluhornið, þá steinahornið, svo regnskógahornið, ástralska frumbyggjahornið, mannalíffræðihornið, o.fl. o.fl. Ég stóð mig sjálfa að því að vera skælbrosandi í mannalíffræðihorninu t.d. þegar ég var að skoða alvöru hjarta og heila og margt fl. Ég heyrði flesta aðra segja ,,eeeeeeeeeewwwwwwwwww" öðru hverju. Það er bara misjafnt hvað heillar hvern og einn.

Sama dag fór ég í bíó í IMAX, sem er í sama húsi og safnið, en maður fær afslátt á safnið ef maður kaupir bíómiða, svo ég sló til og sló tvær flugur í einu höggi. Myndin sem ég valdi heitir ,,Dolphins and Whales, 3D", (kemur á óvart að ég skyldi velja það?!). Ég var mikið búin að hlakka til að sjá þá mynd. Þegar ég kem inn í salinn er enginn annar kominn en þá voru bara 5 mínútur í myndina. Salurinn var risastór og sætin óteljandi! Skjárinn(tjaldið) var einnig hrikalega stór og er víst þriðji stærsti skjár í heimi!! Ég ætlaði að taka mynd af honum en gat það ekki sökum stærðarinnar og náði bara mynd af honum í litlum bútum í einu, haha. Þá fór fólk að týnast inn í salinn og við vorum orðin alveg 10 manns í þessum gríðarstóra sal þegar myndin var rétt að fara að byrja. Það var bara þægilegt að vera útaf fyrir sig en ég var með heila sætaröð útaf fyrir mig. EN NEI! Kemur þá ekki einn hvalaáhugamaður til viðbótar í salinn, og sest BEINT við hliðina á mér, af öllum skrilljón sætunum sem voru laus! Týpískt.

Jæja, svo byrjaði myndin, það var flott að sjá hvalina í 3D en ég varð fyrir vonbrigðum með myndina. Þetta var meira upptalning á hvölum og skyldum dýrum og á hvaða stigi útrýmingarhættu hver og ein tegund er. Sem betur fer var myndin bara í 45 mínútur. Það var talað inná og rosalega var þetta skrýtinn texti sem viðkomandi las. Ég get gefið ykkur dæmi, sem ég gleymi seint eða aldrei: ,,Manatee´s (sækýr) diet causes flatulence, see all these bubbles!".

Nú er bara vika þangað til ég fer í íbúðina til Ella, Kristbjargar og Freyju. Freyja er alger rúsína og svo mikill snillingur :) Nú fer að styttast í að skólinn verði búinn hjá Ella, veivei! Kristbjörg á samt eitthvað eftir í vinnunni sinni.

Læt gott heita í bili, hvað er að frétta af ykkur? Væri gaman að fá "kvittun" í athugasemdir svo ég viti hverjir lesa bloggið :)

P.s. ég vakna oft með eitthver lög á heilanum úr ástralska barnatímanum.. sbr. yfirskriftina.. haha.

Kv., E-Maíja.


Óhappadagurinn..?

Hæhæ.

Þetta var nú meeeeeeiri dagurinn! Svolítill hrakfallabálka-dagur að hætti Evu Maríu. Þið sem þekkið mig vel vitið nú þegar að ég á það til að vera eilítið.. eða öllu heldur frekar oft....seinheppin!

Í dag var einn af þessum óhappadögum. Dagurinn byrjaði á því að ég vaknaði með eitthvað kvef (en bara eitthvað smotterí sem betur fer.. allavega ennþá..!).

Í gær kom ræstingarfólkið að þrífa íbúðina (koma einu sinni í viku). Þá eru alltaf settar tvær auka klósettrúllur og sápa, hrein handklæði og hreint á rúmið o.s.frv. Ég tók þá eftir því að þær höfðu gleymt að setja fleiri klósettrúllur og það var bara eitt blað eftir á rúllunni :S !! Þá heyri ég ræstingarfólkið tala saman frammi svo ég spyr það hvort ég megi ekki fá eina auka rúllu því það gleymdist að bæta við hjá mér. Þá setti ein konan upp svip og spurði mig höstuglega: ,,What room number are you in???" Og ég svaraði því og hún rétti mér eina með fýlusvip og svaraði engu þegar ég þakkaði KÆRLEGA fyrir! Ég vona nú bara að ég verði ekki rukkuð aukalega fyrir þessa einu klósettrúllu...!

Ég ákvað í gær að í dag skyldi þvottur loksins fara fram, enda búin að vera dugleg að fylla upp í þrjá Bónus poka (vona að Ástralirnir þekki ekki Bónus grísinn okkar..). Jújú, mín skundaði í næstu verslun og keypti þessa flottu (lesist "dýru") þvottasápu.  Svo fór ég í byggingu hérna við hliðina á íbúðinni en þar geta íbúar hótelsins þvegið þvottinn sinn. Það er ágætis aðstaða til að þvo og setja í þurrkara. Ég skellti öllu saman í eina stóra vel og valdi "warm", en það er hægt að velja um "hot-warm-cold". Svo fer ég eitthvað afsíðis og kem svo aftur til að tékka á vélinni og þá sá ég að stillt var á "cold". Svo þvotturinn varð ekkert sérlega hreinni fyrir vikið og upp gaus þessi "dýrindis" fúkka lykt. "O, jæja, ég skelli þessu bara í þurrkarann", sem var nú reyndar hægara sagt en gert! Því þegar ég er búin að setja fötin inn, og peninginn í, þá bara gerist ekki baun, ekkert snýst, en mínúturnar hins vegar hverfa hver af annarri á tímamælinum. Ég spurði þá konu sem var að vinna þarna við að þrífa handklæði frá hótelinu, hvernig í ósköpunum þetta getur gerst. Þá setur konan upp stór augu O_O og segir ,,No,no,no, you put the money in the wrong dryer"!!! Þá hafði ég verið svo góð að bæta við heilum klukkutíma hjá einhverjum öðrum sem var að nota þurrkarann fyrir ofan minn OG breytt stillingunni þar að auki í ,,delicate". Sjæse, o, jæja, viðkomandi græddi kannski bara á því... eða ég vona það.. en konan var alveg að fara úr límingunum. Ég beið þá þarna eins og eitthver hálfviti eftir að viðkomandi kæmi að sækja þvottinn sinn svo ég gæti útskýrt hvað gerðist. Á meðan setti ég pening í réttan þurrkara og allt fór af stað.

Svo er minn þvottur loksins búinn en ekkert bólar á þeim sem ég var að bíða eftir. Svo ég skelli bara öllum þvottinum í poka og hleyp út skömmustuleg og vonaði að ég ætti ekki eftir að hitta þann sem átti þvottinn. Ég þakkaði samt konunni fyrir hjálpina, en hún svaraði engu, heldur skellihló bara!

Þegar ég kem í íbúðina þá gýs upp þessi fína fúkkalykt af fötunum, SEM voru ennþá jafnblaut og þegar ég setti þau í þurrkarann! Svo að íbúðin er núna undirlögð af hálfblautum, illa lyktandi fötum! Ég nota þessa aðstöðu ekki aftur, heldur fæ að þvo aftur hjá Ella og Kristbjörgu, en það er þvottaherbergi á hæðinni þeirra og þar gekk fyrsti þvotturinn eins og í sögu!

Svo er ég að ganga frá fötunum, þá sparka ég óvart í þvottaefnis-kassann, sem ég var nýbúin að kaupa, og þvottaefni útum allt teppi í "stofunni". Ég er ekki með neina ryksugu í íbúðinni eða kúst svo ég þurfti að dúmpa teppið með blautum klút, og mér sýnist ennþá vera nóg eftir í teppinu...!

Í dag hélt Elli fyrirlesturinn sinn um Masters-verkefnið sitt. Það gekk mjög vel og ég held að það sé mikill léttir fyrir hann að vera búinn með þann pakka. Í tilefni af því fórum við á veitingastað þar sem við fengum okkur "steik og bjór" eins og Elli, Kristbjörg ooog Freyja kalla það! haha. Ég var ekki heppin með steik og ofan á það beit ég illa í tunguna svo hún varð alveg dofin.

 

Hrakfalla dagur í boði Evu. 

Ég vona samt sem áður að næsta blogg verði með meira kjöt á beinunum og áhugaverðara.. haha!

Bið að heilsa.

E-Maíja.


Didgeridoo, Kangaroo, woohoo

Hæ. hæ.

Svolítið langt síðan ég bloggaði seinast en tíminn líður bara svo hratt!!!

Nú er ég búin að vera í tæpar 3 vikur og eftir nákvæmlega 2 vikur verð ég ekki lengur í íbúðinni heldur flyt til Ella, Kristbjargar og Freyju.

Ég fór um daginn á markað hérna rétt hjá, sem er eins og fancy útgáfa af Kolaportinu... rosalega mikið til þar af fersku grænmeti, kjöti og fleira. Svo vantar ekki dótið þar til sölu, flestallt nýtt. Ég á eftir að fara aftur og spreða peningum en þar er hægt að kaupa ýmislegt ástralskt dót eins og didgeridoo og boomerang, o.fl. o.fl.

Hitinn er alltaf að aukast smátt og smátt og sumarið rétt handan við hornið. Það er búið að vera í kringum 20-25 gráður. Um daginn var 28/29°C og ég var að stikna úr hita en Elli og Kristbjörg segja það ekkert miðað við það sem getur gerst á sumrin... ég er svolítið kvíðin því, kannski of mikill ÍS-lendingur í mér... ho..ho.... :Þ

Já, ég hef annars verið dugleg að smakka ísinn hérna (surprise, surprise), sem er mega góður, ítalskur ís! Svo hef ég prófað ýmislegt á kvöldin með E+K+F og í gær borðuðum við á stað sem heitir Malaysian / Chinese Rice Bar og ég fékk mér Singapore núðlur sem voru geðveikt góðar! Það var vel út í látið og mín hélt sko ekkert aftur af sér og kláraði allt... DÚLEG!

Var að horfa á Neighbours áðan í fyrsta sinn eftir að ég kom til Ástralíu... og þeir eru náttúrulega á réttum tíma hérna (nokkrum vikum eftir á eða mánuðum eftir á heima á Íslandi) og það er bara búið að gefa nokkrum leikurum "frí"..þessi og hinn er týndur.. margir hafa dáið og ég veit ekki hvað... ,,kannski" orðinn dálítið útþynntur þáttur... haha.

Var líka að horfa á þátt sem heitir ,,Man vs. Wild" þar sem e-r gaur fer út í óbyggðirnar hér og þar í heiminum og reynir að komast af með því að nýta náttúruna og lifa á henni án allra tækja og græja. Svo vildi skemmtilega til að hann var á Íslandi í óbyggðunum og þetta var svo dramatískt að ég skemmti mér vel þegar gaurinn fór næstum að grenja við það að labba útí smá roki og hvað honum fannst erfitt að labba í mosa. Fékk reyndar smá heimþrá þegar ég sá hann í kuldanum og rokinu.... hihi

Jæja, blogga aftur fljótlega :)
Þangað til næst,
E-Maíja.


Seinustu dagar.

Hæhó.

Ég hef lítið verið í tölvunni minni, því greyið er örugglega aaaalveg að fara að gefast upp. 

Það var svo kalt um daginn að ég þurfti að hafa hitann á í loftkælingunni inni í íbúðinni!! Veðrið er samt mun betra núna, og í dag voru 22°C og á morgun á að vera 25°C! Í dag fór ég í túrista-strætó sem er ókeypis og fer ákveðinn hring í borginni. Ég geri mér aðeins betur grein fyrir því núna hvernig aðalbærinn er og hvar ég er staðsett í honum...! Það var samt frekar skrýtið að vera ein að fara í eitthvað svona túristadæmi, en það var bara fínt.

Ég og Kristbjörg fórum í gær í bíó á teiknimynd í 3D. Hún var um uglur og heitir ,,Legend of the Guardians- The Owls of Ga´Hoole". Hún er ótrúlega vel gerð og ég mæli með henni. Það á að sýna hana bráðlega á Íslandi, getið lesið um hana hérna:  http://midi.is/bio/11/523/  Bíóið var ótrúlega flottog fancy - salurinn með lazy-boy og sýningartjaldi fyrir framan bíótjaldið og svo var dregið frá því í upphafi sýningarinnar. Svo fengum við über flott 3D gleraugu.  :)    Við fórum fyrir hádegi í bíó og það var frekar skrýtið að koma úr bíó-inu út í hádegis-sólina! hehe.

Jæja, læt gott heita í bili.

Bið að heilsa til Íslands. :)

 

Kv., E-Maíja.

 

 

 


Rok og rigning....

Hæ, hæ.

Það er búið að rigna næstum non-stop í dag og gær. Það er í rauninni búið að vera ekta íslenskt veður seinustu daga: rok og rigning. Það er líka búið að vera rosalega kalt og maður hefur þurft að vera í peysu, síðbuxum og kápu. Það var meira að segja þörf fyrir vettlinga og húfu í dag... en mér datt ekki í hug að koma með það með mér hingað! Það var sagt í fréttunum áðan að það hefur ekki verið svona kalt hérna í 15 ár!!

Ég, Kristbjörg og Freyja fórum samt niður í bæ í dag og skoðuðum Yarra ána sem rennur í gegnum Melbourne. Við fórum líka í grasagarð sem er stór og flottur en svo þurftum við að flýta okkur heim vegna veðurs. Á morgun á að vera 16°C sem þykir kalt og svo á að rigna líka. Nú er mig bara farið að lengja eftir ástralska sumrinu....!

Vona að það sé betra veður á Íslandi...!

 Kv., E-Maíja, ofurbloggari :D


Ruglumbugl

Hæhó.

Það er búið að vera óvanalega ,,kalt" og skýjað seinustu daga og á að vera þannig eitthvað áfram næstu daga.

Ég og Freyja fórum saman á ,,litla róló" og lékum okkur saman í dag. Freyja er svo skemmtileg og það eru nokkrir gullmolar á dag. Eitt af því fyndnasta er að hún sagði við mig fyrir nokkrum dögum: ,,Eva er með fuglahár". Það var ógeðslega fyndið og við höfum verið að reyna að komast að því hvað fuglahár sé t.d. með því að spyrja Freyju hvort hinn og þessi sé með fuglahár og það sem við komumst næst var að fuglahár var dökkt hár. Mér datt nú samt í hug að fuglahár væri hár eins og á fuglahræðu en ég tók því bara sem hrósi að ég væri með fuglahár þangað til annað kæmi í ljós.

Svo í gær þá er Freyja að fikta á hárinu mínu og ruglaði hárinu smá. Þá sagði Freyja: ,,Eva með fuglahár!" og svo slétti hún úr því og sagði svo : ,,Eva ekki með fuglahár". Svo fuglahár er ,,ruglað-hár" :D Ég þarf víst að fara að greiða mér meira og betur.....! hehe.

Ég er búin að kíkja niður í bæ sem er stór og skemmtilegur.. fullt af skemmtilegum búðum. Ég hef samt ekki keypt mér mikið en það er ekkert ódýrt hérna fyrir Íslending að versla! Svo eru spes búðir eins og ,,cup-cake-bakery" og Lind kaffihús :D

Ég hef verslað mat nokkrum sinnum með E+K+F í supermarket hérna rétt hjá. Í dag sagðist ég þurfa að fara að versla smá og ætlaði að rölta þangað eins og nokkrum sinnum áður. Ég var aaaaalveg viss um að ég myndi rata en áður en ég vissi af var ég komin í eitthverjar ógöngur. Svo í staðinn fyrir að stoppa og líta í kringum mig nervös með túristakort ákvað ég að labba áfram þar til ég rambaði á 7-Eleven. Þar fór ég inn og ætlaði bara að kaupa smotteríi til að fara ekki tómhent til baka þar sem ég gat ómögulega áttað mig á hvar supermarket-inn var. Ella og Kristbjörgu var ekki lítið skemmt yfir þessari fýluferð minni og að ég hefði ekki ratað..

Ég hef svo sem ekki meira að segja í bili... en ég er búin að bæta við 4 myndum í myndaalbúmið, m.a. af páfagauknum sem ég sá-hann heitir víst ,,rauðrassa graspáfi" hehehe :D


Bloggedíblogg

Hæ, hæ.

Héðan er allt gott að frétta.

Það rigndi í dag, alvöru útlanda rigning. Mig langar samt að sjá þrumur og eldingar þrátt fyrir mitt "oplevelse" um daginn.. það er gaman að sjá alvöru þrumur og eldingar þegar maður er niðri á jörðu öruggur inní húsi.

Ég trúi því ekki að það sé strax liðin vika síðan ég kom hingað, mér finnst tíminn hafa liðið líkt og fingri smellt. Ég á enn eftir að skoða mig betur um en það er nægur tími eftir!

Samgöngurnar hérna eru góðar, tram (sporvagnar), rútur og fleira og maður þarf ekki að bíða lengi milli vagna. Trén hérna eru frekar spes eða ólík því sem maður á að venjast heima og fuglalífið hérna einnig. Í dag sáum við lítinn páfagauk sem ég hef aldrei séð áður.

Hér er þegar farið að selja jóladót og jóletré komin upp hér og þar.... frekar skrýtið að sjá allt þetta jóladót í hitanum. Það er búið að vera frekar skýjað seinustu daga og það á að vera þannig næstu daga, ég er pínu fegin því hitinn er 25°C ca. þrátt fyrir skýin, er ekki alveg tilbúin fyrir ekta ástralskt sumar.

Ég hef farið nokkrum sinnum í súpermarkaðinn hérna rétt hjá með E+K+F og þar er margt sniðugt sem ég hef aldrei prófað! Það er svo gaman við útlöndin að þar er margt sniðugt sem maður hefur aldrei séð eða prófað. Og vitið þið bara hvað..... hér er PK tyggjó selt!!!!!! :D Ætla að taka með mér fulla ferðatösku heim af PK tyggjói... hoho!!

Ætla að setja aftur inn myndir fljótlega.. en núna ætla ég að fara að lúlla.

Kv., E-Maíja.


Melbourne Zoo og Tim Burton Exhibition

Hæ,hæ.

Héðan er allt gott að frétta.
Í gær fórum við (ég, Kristbjörg og Freyja) í Melbourne Zoo. Það var rosalega gaman og ótrúlega gaman að sjá Kóala sem svaf svo sætt og kengúrurnar. Svo voru tveir ,,baby elephants" sem að Freyja hlakkaði svo mikið til að sjá. Svo þegar við vorum búnar að sjá litlu beibí fílana þá sagði Freyja: ,,Freyja happy!". :)

Í dag fór ég og Kristbjörg á Tim Burton sýningu niðrí bæ. Það var verið að sýna fullt af leikmunum, brúðurnar úr t.d. Nightmare before Christmas og búningana úr Batman Returns og Edward Scissorhands og margt margt fleira. Það var samt frekar fúlt að það var stranglega bannað að taka myndir. Svo ætlaði ég að stelast til þess og tók því flassið af en myndin kom hörmuglega út en það var frekar dimmt yfir í sýningarsölunum en Tim Burton er nú ekki þekktur fyrir björt þemu eða skæra liti... En ég gat tekið nokkrar myndir fyrir utan-af Batman bílnum -veivei :)

Ég rata nú ekkert alltof vel hérna en þetta kemur smátt og smátt..!
Íbúðin er fín en það er pínu skrýtið að vera svona ein í íbúð í útlöndunum......
Ég hef ekkert haft tíma í að skoða sundlaugina eða líkamsræktarsalinn-en það gefst kannski tími í það seinna!

Freyja er svo skemmtileg og góð stelpa. Rosalega kurteis og segir alltaf. ,,excuse me" ef hún þarf að komast framhjá manni :) Elli er rosalega duglegur en það er mikið að gera hjá honum í skólanum núna.

Það er svo skrýtið að það sé að koma sumar hérna en það var mun heitara í dag en hefur verið og meiri raki.
Ástralir eru mjög kurteisir of viðkunnanlegir.

Ætla að reyna að setja inn nokkrar myndir núna-vona að netið verði samvinnuþýtt!!

Það væri gaman að fá nokkrar línur frá ykkur á gmail-ið mitt svona til að heyra hvað er að frétta af ykkur :)

Kær kveðja,
Eva.


Dagur 2

Hæ, hæ.

Stutt blogg í þetta skiptið.

Vaknaði fyrir hádegi og labbaði heim til Ella og Kristbjargar sem voru að læra/vinna. Ég fór svo með Kristbjörgu að sækja Freyju á leikskólann og við fórum á flottan róló. Eftir það fórum við í súkkulaði-paradísinn ,,Koko Black" þar sem ég fékk mér fancy ,,White Chocolate Semi-Fredo" og Belgian hot chocolate namm namm namm. Svo röltuðum við heim og fengum okkur að borða saman. Íbúðin sem ég er í er mjög fín, á 4. hæð á svona íbúða-hóteli. Íbúðin er í ca. 10 mínútna göngufjarlægð frá E+K+F. Það er búið að vera frekar kalt seinustu daga en það á að hlýna um helgina. Trén hérna eru mjög flott og blómin og allt öðruvísi en maður hefur séð í Evrópu. Er búin að taka nokkrar myndir og ætla að reyna að setja eitthverjar inn hérna á bloggið sem fyrst. Á morgun erum við að hugsa um að fara í Melbourne Zoo :D

Kveðja,

E-Maíja!


Ferðalagið mikla!

Hæ,hæ.

 

Er núna í íbúðinni hjá Ella, Kristbjörgu og Freyju. Elli er farinn í skólann, Kristbjörg að kenna og Freyja á leikskólann. Ég er búin að fara í stuttan göngutúr hér í kring og mér finnst umhverfið mjög líkt því sem er í London. Það er aðeins kaldara en ég bjóst við en fólk er í kápum, úlpum en aðrir á stuttermabol..! Ég gisti hjá þeim fyrstu nóttina en fer í íbúðina á eftir. Freyja er mesta dúlla í öllum heiminum. Hún var sofnuð þegar ég kom svo að ég sá hana fyrst núna í morgun. Ég var vöknuð á undan þeim, vaknaði við krákusöng, og ég heyri bara allt í einu Freyju segja: ,,Hair-cut” þegar hún vaknaði. Þá fóru þau að ræða saman inní herbergi en ég gisti inní stofu. Þá segi ég ,,halló” þá segir Freyja; ,,E-Maíja!” og þau komu fram og Freyja var mjög hissa og pínu feimin en það var bara fyrst. Hún hafði rosalega mikið að segja þegar ég kom og sýna mér allt í íbúðinni. Svo opnuðum við pakka sem Elli, Kristbjörg og Freyja fengu og ég fékk líka pakka :) Svo borðuðum við morgunmat – bakkelsi og svo muffins í eftirrétt sem Kristbjörg og Freyja höfðu bakað daginn áður :)

 

Jæja, svo er það ferðalagið sjálft!!!

 

London-Singapore

Ég gisti eina nótt í London með mömmu og pabba sem eru þar enn en þau ætla á tónleika með Elvari og co. á fimmtudagskvöldið--slá tvær flugur í einu höggi með London ferðinni- sumir voru samt spenntir að komast í Primark.. sérstaklega pabbi!

Ég verð að viðurkenna að ég var frekar nervös að fara ein alla þessa leið en það var í raun mun auðveldara að ferðast þetta en ég bjóst við. Fyrst flaug ég sem sagt frá London til Singapore í 12-13 klst. flugi. Fyrra flugið gekk mjög vel og hver og einn fékk sinn skjá og fjarstýringu og maður gat valið sjónvarpsþætti, myndir, nýjar og gamlar og lært tungumál og ég veit ekki hvað! Sætin voru samt aðeins þrengri en ég hafði ímyndað mér en maður var bara duglegur að standa upp. Ég sat við hliðina á gömlum hjónum á leiðinni út sem stóðu bara einu sinni upp alla leiðina! Manni var boðið eitthvað að drekka á svona 1,5 klst fresti svo salernisferðirnar mínar voru ófáar... fólk hefur örugglega haldið að ég væri með blöðruvesen eða eitthvað...

 

Singapore-Melbourne

Svo skipti ég um vél í Singapore og hafði 2 klst til þess sem var nægur tími. Rakinn tók á móti mér í Singapore og ég er pínu ánægð að hafa ekki þurft að yfirgefa flugvöllinn.. (ég mun samt stoppa þar á leiðinni heim). EN nú kom versti hluti ferðalagsins!!! Flugið sjálft gekk mjög vel og það átti að taka um 7-8 klst. Ég sat við hliðina á ungu pari með barn sem eru áströlsk en búa í Singapore. Ég var eitthvað skrýtin í maganum og ekkert búin að sofa í tvo sólarhringa. Flugfreyjurnar tóku eftir því og vildu allt fyrir mig gera. Svo kom ein flugfreyjan til mín og spurði mig hvort ég væri með mikið loft í mér. Ég jánkaði og þá sótti hún töflur og sagði mér að taka þær sem myndu láta mig ropa eða prumpa ( og bætti við; don´t worry, it´s very common!)!!! Hún orðaði það svo skemmtilega og sagði þetta svo hátt og snjallt að mér leið mjög kjánalega, en ég bruddi þessar töflur –svona freyðitöflur- og viti menn- það losnaði fljótt um loftið.. í báðar átti fyrir áhugasama, ferðafélögum mínum örugglega til mikillar skemmtunar! Ég var samt svo ótrúlega steikt að ég hugsaði það ekki alveg til enda en ég fékk mér Coke rétt á eftir að hafa tekið inn þessar freyðitöflur svo í staðinn varð mér svo flökurt að mér leið illa alla ferðina. Ég fékk mér ekkert að borða því ég gat það bara ekki. Þá var settur límmiði á stólinn minn –greinilega um það að mér liði illa því þær voru alltaf að spyrja mig hvað þær gætu gert fyrir mig. Ég reyndi að sofa alla leiðina en dottaði bara í eitthverjar 10 min.

Svo var komið að því LANGversta--að lenda!!!! Akkúrat þegar við áttum að lenda þá kemur svaka þrumuveður og ókyrrðin var það mikil að ég varð viss um að ég yrði ekki eldri...!!! Ég sá eldingarnar útum gluggann og ég titraði af hræðslu ásamt öllum í kringum mig!! Kona sem sat fyrir framan mig tók í hendina á næsta manni sem hún þekkti ekki neitt (kom í ljós seinna) og kona sem sat hinum megin við ganginn var múslimi og hún setti hendurnar upp í loft og bað til Allah og öll ungabörn öskruðu af lífi og sál. Ég varð auðvitað skíthrædd og var viss um að þetta væri minn lokadagur-hef ALDREI verið jafnhrædd á ævi minni!!! Við vorum í dágóðan tíma í ókyrrðinni að reyna að lenda en svo eftir svona 10-15 mínútur (sem liðu eins og heil eilífð) tilkynnir flugstjórinn að það verði að hætta við lendingu og við munum lenda á litlum flugvelli rétt út frá Melbourne. Við flugum þá útúr ókyrrðinni og í 20 mínútur til þessa litla flugvallar og lentum þar heil og höldnu. Ég titraði óhugnanlega mikið í sætinu þegar við vorum nýlent -ég get ekki lýst því hvað ég var hrædd en ég var viss um að ég ætti ekki eftir að lenda heil og höldnu. Við fengum mjög takmarkaðar upplýsingar og biðum í vélinni í sætunum og ég spurði unga parið við hliðina á mér hvað myndi gerast. Þau sögðust aldrei hafa lent í þessu áður en þau búa í Singapore en fara reglulega að heimsækja skyldmenni sín í Melbourne... ÞAU voru skíthrædd líka en voru alltaf að hughreysta son sinn sem er um 2 ára, ég róaðist aðeins við bara að heyra það sem þau sögðu við hann. Það var ótrúlega fyndið að sá litli sá greinilega að ég var að skíta á mig af hræðslu því hann setti hendina á handlegginn minn og bullaði eitthvað eins og hann væri að reyna að hughreysta mig. Á meðan að við biðum eftir tilkynningum var mamma hans að lesa fyrir hann bók og hann vildi alltaf sýna mér líka. Alger dúlla. Parið sagðist halda að við myndum þurfa að fara úr vélinni á þessum litla velli í staðinn. Þá spurði ég hvað tæki langan tíma að keyra þaðan til Melbourne flugvallarins og þau sögðu um klst.! Þau voru rosalega almennileg og buðu mér strax að fara í leigubíl með þeim og þau vildu meira að segja leyfa mér að hringja úr þeirra síma í Ella, en ég var búin að segja þeim að bróðir minn væri að bíða eftir mér á flugvellinum. Ég hringdi í Ella sem beið á vellinum og hann lýsti því að þrumuskýin hefðu allt í einu komið og að þetta hefði verið eins og í Independence day- mér leið líka þannig í ókyrrðinni! Svo hófst hina endalausa bið eftir tilkynningum og við fengum hvorki vott né þurrt og okkur var stranglega bannað að nota salernið. Ég var í spreng og svo loks var okkur hleypt á salernið eftir klukkustundar bið í sætunum í kyrrstæðri vél. Svo var okkur loks tilkynnt að við myndum þurfa að bíða eftir því að þrumuveðrið hætti svo við gætum flogið til baka og lent þar!!! Þá varð ég skíthrædd yfir því að þurfa að fljúga aftur, en konan fyrir framan mig þurfti áfallahjálp-það kom allavega maður til hennar og spurði hana margra spurninga um það hvort þetta væri fyrsta flugið hennar o.s.frv. Ég náði þó að róast niður við það að tala við fólkið við hliðina á mér, unga parið og son þeirra sem hætti ekki að styðja hendinni á handlegginn á mér til að hughreysta mig og skrollaði eitthvað sætt (foreldrar hans skildu ekkert í því hvað hann sagði (ekki alveg farinn að tala). Biðin varð 4 klst tæpar og ég var því í flugvélinni aftur samtals í 12 klst. Lendingin gekk svo ágætlega á Melbourne flugvellinum en þó var smá ókyrrð en EKKERT á við það sem á undan var. Ég var þá ekki búin að sofa í rúma 2 sólarhringa og ekkert búin að borða í 14 tíma. Elli greyið beið allan tímann eftir mér á flugvellinum og tók á móti mér-ég fór í svo mikla geðshræringu þegar ég sá hann að það losnaði um táraflóðið og grey Elli tók á móti mér þannig. Auðvitað var ég mjög ánægð að sjá hann og mestu tárin voru gleðitár eftir 1,5 árs aðskilnað, en ég fékk svo mikið taugaáfall í leiðinni þannig að Elli greyið fékk það hlutverk að hugga mig og svo var það allt fljótt gleymt með flugið og þá hitti ég Kristbjörgu svo í íbúðinni og það var rosalega gott að hitta þau aftur. Mér finnst það samt ekkert skrýtið að vera komin til þeirra, og mér finnst ekkert skrýtið að sjá Ella og Kristbjörgu aftur en Freyja er orðin svaka stór og dugleg og er mesta dúlla og krútt. Hún var alltaf að segja í morgun við mig ,,E-Maíja ekki segja bæ???!” :) Svo þegar við fórum með hana á leikskólann áðan þá tók hún í hendina á mér og vildi ekki sleppa. Alger dúlla.

 

Núna ætla ég að leggja mig aðeins en ég er enn með flug-riðu og mér finnst ég alltaf vera að lækka flugið....! Ég er líka ennþá að jafna mig eftir tímaruglið og allt þetta.

 

Þangað til seinna.

 

E-Maíja.


Næsta síða »

Höfundur

Eva María Guðmundsdóttir
Eva María Guðmundsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband