Leita í fréttum mbl.is

Ferðalagið mikla!

Hæ,hæ.

 

Er núna í íbúðinni hjá Ella, Kristbjörgu og Freyju. Elli er farinn í skólann, Kristbjörg að kenna og Freyja á leikskólann. Ég er búin að fara í stuttan göngutúr hér í kring og mér finnst umhverfið mjög líkt því sem er í London. Það er aðeins kaldara en ég bjóst við en fólk er í kápum, úlpum en aðrir á stuttermabol..! Ég gisti hjá þeim fyrstu nóttina en fer í íbúðina á eftir. Freyja er mesta dúlla í öllum heiminum. Hún var sofnuð þegar ég kom svo að ég sá hana fyrst núna í morgun. Ég var vöknuð á undan þeim, vaknaði við krákusöng, og ég heyri bara allt í einu Freyju segja: ,,Hair-cut” þegar hún vaknaði. Þá fóru þau að ræða saman inní herbergi en ég gisti inní stofu. Þá segi ég ,,halló” þá segir Freyja; ,,E-Maíja!” og þau komu fram og Freyja var mjög hissa og pínu feimin en það var bara fyrst. Hún hafði rosalega mikið að segja þegar ég kom og sýna mér allt í íbúðinni. Svo opnuðum við pakka sem Elli, Kristbjörg og Freyja fengu og ég fékk líka pakka :) Svo borðuðum við morgunmat – bakkelsi og svo muffins í eftirrétt sem Kristbjörg og Freyja höfðu bakað daginn áður :)

 

Jæja, svo er það ferðalagið sjálft!!!

 

London-Singapore

Ég gisti eina nótt í London með mömmu og pabba sem eru þar enn en þau ætla á tónleika með Elvari og co. á fimmtudagskvöldið--slá tvær flugur í einu höggi með London ferðinni- sumir voru samt spenntir að komast í Primark.. sérstaklega pabbi!

Ég verð að viðurkenna að ég var frekar nervös að fara ein alla þessa leið en það var í raun mun auðveldara að ferðast þetta en ég bjóst við. Fyrst flaug ég sem sagt frá London til Singapore í 12-13 klst. flugi. Fyrra flugið gekk mjög vel og hver og einn fékk sinn skjá og fjarstýringu og maður gat valið sjónvarpsþætti, myndir, nýjar og gamlar og lært tungumál og ég veit ekki hvað! Sætin voru samt aðeins þrengri en ég hafði ímyndað mér en maður var bara duglegur að standa upp. Ég sat við hliðina á gömlum hjónum á leiðinni út sem stóðu bara einu sinni upp alla leiðina! Manni var boðið eitthvað að drekka á svona 1,5 klst fresti svo salernisferðirnar mínar voru ófáar... fólk hefur örugglega haldið að ég væri með blöðruvesen eða eitthvað...

 

Singapore-Melbourne

Svo skipti ég um vél í Singapore og hafði 2 klst til þess sem var nægur tími. Rakinn tók á móti mér í Singapore og ég er pínu ánægð að hafa ekki þurft að yfirgefa flugvöllinn.. (ég mun samt stoppa þar á leiðinni heim). EN nú kom versti hluti ferðalagsins!!! Flugið sjálft gekk mjög vel og það átti að taka um 7-8 klst. Ég sat við hliðina á ungu pari með barn sem eru áströlsk en búa í Singapore. Ég var eitthvað skrýtin í maganum og ekkert búin að sofa í tvo sólarhringa. Flugfreyjurnar tóku eftir því og vildu allt fyrir mig gera. Svo kom ein flugfreyjan til mín og spurði mig hvort ég væri með mikið loft í mér. Ég jánkaði og þá sótti hún töflur og sagði mér að taka þær sem myndu láta mig ropa eða prumpa ( og bætti við; don´t worry, it´s very common!)!!! Hún orðaði það svo skemmtilega og sagði þetta svo hátt og snjallt að mér leið mjög kjánalega, en ég bruddi þessar töflur –svona freyðitöflur- og viti menn- það losnaði fljótt um loftið.. í báðar átti fyrir áhugasama, ferðafélögum mínum örugglega til mikillar skemmtunar! Ég var samt svo ótrúlega steikt að ég hugsaði það ekki alveg til enda en ég fékk mér Coke rétt á eftir að hafa tekið inn þessar freyðitöflur svo í staðinn varð mér svo flökurt að mér leið illa alla ferðina. Ég fékk mér ekkert að borða því ég gat það bara ekki. Þá var settur límmiði á stólinn minn –greinilega um það að mér liði illa því þær voru alltaf að spyrja mig hvað þær gætu gert fyrir mig. Ég reyndi að sofa alla leiðina en dottaði bara í eitthverjar 10 min.

Svo var komið að því LANGversta--að lenda!!!! Akkúrat þegar við áttum að lenda þá kemur svaka þrumuveður og ókyrrðin var það mikil að ég varð viss um að ég yrði ekki eldri...!!! Ég sá eldingarnar útum gluggann og ég titraði af hræðslu ásamt öllum í kringum mig!! Kona sem sat fyrir framan mig tók í hendina á næsta manni sem hún þekkti ekki neitt (kom í ljós seinna) og kona sem sat hinum megin við ganginn var múslimi og hún setti hendurnar upp í loft og bað til Allah og öll ungabörn öskruðu af lífi og sál. Ég varð auðvitað skíthrædd og var viss um að þetta væri minn lokadagur-hef ALDREI verið jafnhrædd á ævi minni!!! Við vorum í dágóðan tíma í ókyrrðinni að reyna að lenda en svo eftir svona 10-15 mínútur (sem liðu eins og heil eilífð) tilkynnir flugstjórinn að það verði að hætta við lendingu og við munum lenda á litlum flugvelli rétt út frá Melbourne. Við flugum þá útúr ókyrrðinni og í 20 mínútur til þessa litla flugvallar og lentum þar heil og höldnu. Ég titraði óhugnanlega mikið í sætinu þegar við vorum nýlent -ég get ekki lýst því hvað ég var hrædd en ég var viss um að ég ætti ekki eftir að lenda heil og höldnu. Við fengum mjög takmarkaðar upplýsingar og biðum í vélinni í sætunum og ég spurði unga parið við hliðina á mér hvað myndi gerast. Þau sögðust aldrei hafa lent í þessu áður en þau búa í Singapore en fara reglulega að heimsækja skyldmenni sín í Melbourne... ÞAU voru skíthrædd líka en voru alltaf að hughreysta son sinn sem er um 2 ára, ég róaðist aðeins við bara að heyra það sem þau sögðu við hann. Það var ótrúlega fyndið að sá litli sá greinilega að ég var að skíta á mig af hræðslu því hann setti hendina á handlegginn minn og bullaði eitthvað eins og hann væri að reyna að hughreysta mig. Á meðan að við biðum eftir tilkynningum var mamma hans að lesa fyrir hann bók og hann vildi alltaf sýna mér líka. Alger dúlla. Parið sagðist halda að við myndum þurfa að fara úr vélinni á þessum litla velli í staðinn. Þá spurði ég hvað tæki langan tíma að keyra þaðan til Melbourne flugvallarins og þau sögðu um klst.! Þau voru rosalega almennileg og buðu mér strax að fara í leigubíl með þeim og þau vildu meira að segja leyfa mér að hringja úr þeirra síma í Ella, en ég var búin að segja þeim að bróðir minn væri að bíða eftir mér á flugvellinum. Ég hringdi í Ella sem beið á vellinum og hann lýsti því að þrumuskýin hefðu allt í einu komið og að þetta hefði verið eins og í Independence day- mér leið líka þannig í ókyrrðinni! Svo hófst hina endalausa bið eftir tilkynningum og við fengum hvorki vott né þurrt og okkur var stranglega bannað að nota salernið. Ég var í spreng og svo loks var okkur hleypt á salernið eftir klukkustundar bið í sætunum í kyrrstæðri vél. Svo var okkur loks tilkynnt að við myndum þurfa að bíða eftir því að þrumuveðrið hætti svo við gætum flogið til baka og lent þar!!! Þá varð ég skíthrædd yfir því að þurfa að fljúga aftur, en konan fyrir framan mig þurfti áfallahjálp-það kom allavega maður til hennar og spurði hana margra spurninga um það hvort þetta væri fyrsta flugið hennar o.s.frv. Ég náði þó að róast niður við það að tala við fólkið við hliðina á mér, unga parið og son þeirra sem hætti ekki að styðja hendinni á handlegginn á mér til að hughreysta mig og skrollaði eitthvað sætt (foreldrar hans skildu ekkert í því hvað hann sagði (ekki alveg farinn að tala). Biðin varð 4 klst tæpar og ég var því í flugvélinni aftur samtals í 12 klst. Lendingin gekk svo ágætlega á Melbourne flugvellinum en þó var smá ókyrrð en EKKERT á við það sem á undan var. Ég var þá ekki búin að sofa í rúma 2 sólarhringa og ekkert búin að borða í 14 tíma. Elli greyið beið allan tímann eftir mér á flugvellinum og tók á móti mér-ég fór í svo mikla geðshræringu þegar ég sá hann að það losnaði um táraflóðið og grey Elli tók á móti mér þannig. Auðvitað var ég mjög ánægð að sjá hann og mestu tárin voru gleðitár eftir 1,5 árs aðskilnað, en ég fékk svo mikið taugaáfall í leiðinni þannig að Elli greyið fékk það hlutverk að hugga mig og svo var það allt fljótt gleymt með flugið og þá hitti ég Kristbjörgu svo í íbúðinni og það var rosalega gott að hitta þau aftur. Mér finnst það samt ekkert skrýtið að vera komin til þeirra, og mér finnst ekkert skrýtið að sjá Ella og Kristbjörgu aftur en Freyja er orðin svaka stór og dugleg og er mesta dúlla og krútt. Hún var alltaf að segja í morgun við mig ,,E-Maíja ekki segja bæ???!” :) Svo þegar við fórum með hana á leikskólann áðan þá tók hún í hendina á mér og vildi ekki sleppa. Alger dúlla.

 

Núna ætla ég að leggja mig aðeins en ég er enn með flug-riðu og mér finnst ég alltaf vera að lækka flugið....! Ég er líka ennþá að jafna mig eftir tímaruglið og allt þetta.

 

Þangað til seinna.

 

E-Maíja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilld! gott að heyra að þetta endaði allt vel! þvílíkt ævintýri :) gott að vera kominn með aðgang að blogginu! bið að heilsa fjölskyldunni :D :D

Valli bróðir (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 03:27

2 identicon

Hæ, gott að þú ert komin þangað heilu á höldnu :) Alveg snilldar lýsing á ferðinni, hló upphátt á köflum!!!

Hahaha, snilld að það hafi verið settur límmiði á stólinn!! Gott samt að það var vel hugsað um þig á leiðinni :) Seinni flugferðin hljómar ekki vel, örugglega ekki mjög hressandi að sjá eldingar útum gluggann!! En algjör dúllustrákur sem sat við hliðina á þér!!

Prófaðirðu tungumálanámskeiðið í vélinni? Var ekki leikjatölva líka? Maður vex aldrei upp úr svoleiðis :)

Hafðu það gott!! ...og mér heyrist á lýsingunni að þú sért uppáhaldsfrænkan... :o)

Harpa (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 03:58

3 identicon

Æji aumingja þú... Það er týpískt að það er alltaf eitthvað vesen þegar maður er að ferðast einn... En gott að þetta er búið, Ég vona bara að þetta verði ekki til þess að þú farir aldrei aftur í flug.

Er að hlusta á "don't eat the yellow snow"... hehe

jóhanna María Einarsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 12:17

4 identicon

Vááá ertu að grínast?? Elsku dúllan mín.. mikið er ég glöð að þú ert komin á leiðarenda í heilu lagi! Þetta hefur ekki verið hugguleg lífsreynsla :S

En gaman að lesa hvað það er huggulegt hjá ykkur og Freyja spennt yfir stóru frænku :)

Æði að geta fylgst með þér á blogginu.. vertu nú duglegur bloggari ;)

Sigrún (IP-tala skráð) 7.10.2010 kl. 15:30

5 identicon

@Valur: Já, ævintýri sem sem betur fer endaði vel ;)

@Harpa: Já, prófaði að læra: japönsku, spænksu, ítölsku og grísku hehe. Mjög gaman. Gleymdi reyndar að prófa leikina!

@Jóhanna: Neinei, engin hætta á því að maður hætti að fljúga! En já, Frank Zappa var snilli, þetta er eitt af mínum uppáhaldslögum m. honum-hlustaðu sérstaklega vel á textann í þessu lagi!!

@Sigrún: Já, takk, maður er fegin að þetta sé búið, en mjög gaman að vera komin-ferðarinnar virði!!!

Eva María Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 12:38

6 identicon

Sjitt, þetta hefur verið rosalegt ferðalag.

En gott að allt hafi gengið vel í lokin!

Kv. Brósi

Elvar Jón Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 00:55

7 identicon

En gaman að lesa elsku Eva! Þetta hlýtur að hafa verið rosaleg upplifun : / hrikalegt með þrumuveðrið... þú ert hetja! Frábært að allt endaði vel : ) bið kærlega að heilsa!

Soffía (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Eva María Guðmundsdóttir
Eva María Guðmundsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband