Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Völundarhús og Disney sýning

Hæ, hæ.

Bara nokkrar línur.

Nú eru tvær vikur í að við leggjum af stað heim! Það er svolítið skrýtið að á morgun sé kominn 1. desember....! Maður er samt farinn að hlakka til að koma heim í jólastemninguna!

Við nýttum seinasta daginn sem við höfðum bílinn í að keyra rétt út fyrir Melbourne city og heimsóttum fallegan garð sem var völundarhús. Það rigndi samt allan þann dag, en við létum það ekkert á okkur fá og vorum bara í regn-ponsjó-um!

Það er búið að vera kalt hérna í Melbourne en nú á að hitna aftur og um 25-30°C út vikuna! Ekkert skrýtið að maður eigi erfitt með að komast í jólaskap! haha.

Ég, Kristbjörg og Freyja fórum á Disney-sýningu á safni um daginn. Það var gaman að skoða allar Disney skissurnar og svona... en auðvitað mátti ekki taka neinar myndir!

Ég og Elli fórum í gær á mynd í Imax sem heitir ,,Under the sea" í 3D, og auðvitað vorum við aftur það heppin að lenda í því að vera með tveimur skólahópum á sýningunni!

Á morgun erum við að fara á U2 tónleika! Það verður eitthvað ,,big" eins og Ástralirnir myndu orða það....hoho.

Þangað til seinna.
Eva.


The Great Ocean Road

Hæ.

Vorum að koma heim úr ferðalaginu. Við keyrðum í vestur frá Melbourne og gistum á stað sem heitir Apollo Bay. Þar er mjög fallegt og við fórum tvisvar á ströndina sem var rétt hjá íbúðinni sem við gistum í. Þar var ekta strandsandur og gaman að labba þar um og byggja kastala.

Við keyrðum svo hluta af ,,The Great Ocean Road", sem er langur vegur meðfram ströndinni til minningar um fallna hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni. Við fórum að skoða ,,The twelve Apostles", sem eru frægir klettar niður við sjó, og ,,The London brigde" sem er lika klettur og lítur út eins og brú!

Þegar við keyrðum þessa leið var auðvelt að verða bílveikur en hann er ekkert nema sveigjur og beygjur stóran hluta af leiðinni.

Við sáum kóala í skógunum á leiðinni en engar kengúrur, þrátt fyrir óteljandi skilti á leiðinni þar sem varað var við kengúrum.

Við vorum frekar óheppin með veður, en það var þungbúið, rigning a köflum og þoka hér og þar.

Á morgun ætlum við að keyra eitthvert sniðugt en svo skilum við bílnum seinna um daginn.

Ég ætla að setja nokkrar myndir á Facebook.

Bið að heilsa. Kv., Eva.


Jamm og já.

Tíminn líður alveg rosalega hratt, það er bara ótrúlegt.
Mér finnst tíminn líða hratt hérna, en mér finnst ég hafa verið óralengi í burtu frá föðurlandinu...

Ég sagðist ætla að setja inn myndir, en ég setti í staðinn inn nokkrar myndir á Facebook, það eru hvort eð er allir með Facebook... :)

Við fjögur erum búin að vera mikið saman núna, en Elli er loksins alveg búinn í skólanum og Kristbjörg er alveg að vera búin með sín verkefni.

Í dag fórum við niður í bæ og skoðuðum líka grasagarðinn hérna betur. Hann er það stór að það er bara vonlaust að skoða hann á einum degi og ég gæti trúað því að það sé enginn Melbourne-búi búinn að skoða hann til hlítar.

Ég og Elli fórum í bíó um daginn, í Imax, að sjá mynd um pöddur í 3D. Það var frekar kúl. En það sem var ekki kúl var að akkúrat þurftu tveir stórir hópar af skólakrökkum að vera á sömu sýningu og við... og maður var alltaf að sjá litlar hendur reyna að grípa pöddurnar (útaf 3D effectum)... æ, það var líka bara krúttlegt kannski!

Við ætlum líklegast að fara í ferðalag í þessari viku, leigja bíl og keyra um. Það verður örugglega gaman. Spáin fyrir vikuna er hrikaleg að mínu mati, næstum 30°C út vikuna... eins gott að bíllinn verði með loftkælingu!

Jæja, ætlaði bara að skrifa smotterí í bili.

Kv., Eva.

P.s. Er búin að vera mikið að hlusta á snilldarlag eftir Val bróður, FaMR lög með Elvari og co. og trommuspil í beinni í boði Ella hérna í Melbourne... rosalega hæfileikaríkir bræður maður!


Komin ,,heim" til Melbourne frá Sydney!

Hæ,hæ.

 

Við komum aftur til Melbourne í gær. Það var ótrúlega gaman í Sydney, sem er rosalega skemmtileg borg.

Við vorum á mjög flottu hóteli rétt hjá óperuhúsinu. Við vorum í herbergi á 16. hæð, mjög flott.

Það var ótrúlegt að sjá óperuhúsið en það er allt öðruvísi að sjá það með eigin augum en á myndum!

Við gerðum margt skemmtilegt. Við fórum í ,,Sydney bátinn" sem fór með okkur smá hring í flóanum. Það er rosalega fallegt þarna í kring. Við fórum út á einni stoppistöðinni (þetta er svona hop on- hop off bátur). Þar gátum við horft yfir til Kyrrahafsins og það var mjög fallegt þar.

Það var rosalega heitt mesta tímann en sólin þarna er mjög sterk... enda brann ég illa á öxlunum.. !

Við vorum dugleg að smakka framandi mat (í mínum augum var hann framandi) og við fórum meira að segja á Löwenbrau Bier Keller og borðuðum ,,Schlachtplatte" sem hafði úrval af kjötréttum. Það var ótrúlega gott og við vorum dugleg að borða það kvöld :D

Ég og Elli fórum á sædýrasafnið í Sydney sem á víst að vera eitt af þeim flottustu. Það var reyndar ekki eins flott og ég hafði ímyndað mér, en gaman að labba þar í gegn. 

Freyja var mjög vinsæl hjá afgreiðslufólki í Sydney og margir sem vildu gefa henni eitthvað, m.a. nammi eða litla bangsa. Oft þegar við erum að labba saman og Freyja situr í kerrunni er fólkið sem við mætum brosandi út að eyrum. Freyja er auðvitað sú sem fær fólkið til að brosa Wink  Elli var samt viss um að fólkið væri að brosa til sín.. hehe.

Það var frábært að geta slappað af með Ella, Kristbjörgu og Freyju milli tarna í skóla og vinnu. Elli og Kristbjörg eru á lokasprettinum núna að klára verkefnin sín.

Nú er nákvæmlega mánuður þangað til við komum heim. Þetta er búið að líða hratt. Ég er ekki komin í neitt jólaskap þrátt fyrir jólaskraut og jólalegar auglýsingar frá verslunum. Það vantar snjóinn og kuldann!

 

Jæja, læt gott heita í bili. Ætla að skella svo inn nokkrum myndum fljótlega!

 

Kv., Eva.


Sydney.... here we come!

Hæ,hæ. Mig langaði að skrifa smá blogg í dag en á morgun erum við að fara til Sydney og verðum þar í þrjá daga.
Í gær mælti ég mér mót við amerísku stelpuna sem ég sagði ykkur frá í seinasta bloggi. Ég hitti hana á strönd hinum megin við Yarra ána en það er sirka hálftíma tram- (sporvagna)-ferð þangað frá íbúð Ella og Kristbjargar. Það var mjög heitt en skýjað þann dag, en það var samt frábært að vera á ströndinni sem var fín og með flottan skeljasand. Þaðan fórum við svo niður í bæ, en við fengum far hjá ástralskri vinkonu hennar sem skutlaði okkur áleiðis að miðbænum.
Við ákváðum svo seinna þann dag að fara í ,,Eureka” turninn en hann er hæsta íbúðabygging suðurhvelsins. Hann hefur um 90 hæðir og útsýnishæðin var á 88. hæð. Ég var pínu áhyggjufull en lofthræðslan hefur aukist með árunum ... (sagt með ,,gamalli” rödd). Eftir að hafa keypt miða í turninn þurftum við auðvitað að fara í lyftu upp á 88. hæð.... það var eins og maður væri að taka á loft í flugvél, en maður fann mikinn þrýsting og hljóðið var svipað og í flugvél að ræsa vélarnar.
Útsýnið var stórkostlegt í Eureka!! Og nú hef ég betri tilfinningu fyrir hvernig borgin liggur og hversu stór hún er en það var ekki hægt að sjá hvar hún endaði (út fyrir endimörk alheimsins... ohoho)! Borgin er mjög falleg; með Yarra ánni sem liggur þvert um borgina, mörgum grænum svæðum, þ.e. görðum og tjörnum hér og þar. Það eru bæði háhýsi og venjuleg hús þar á milli og gaman að sjá fjölbreytileikann í umhverfinu.
Svo kvaddi ég hana en hún flaug heim í dag.

Í morgun var vaknað snemma... (en eftir að ég flutti til E+K+F hef ég haft krúttlegustu vekjaraklukku í heimi sem er mjög skilvirk og það kemur ekki annað í mál en ,,rise and shine” kl. rúmlega 7 alla morgna, haha)!
Ég og Kristbjörg fórum í pedicure sem var frekar skrýtið.. en þetta var mín fyrsta! Kristbjörg er aðeins sjóaðari í þessu.. ;) Maður byrjaði á því að velja sér naglalakk og svo settist maður í nuddstól á meðan fæturnir voru fínpússaðir :D
Elli skilaði masters-ritgerðinni í dag og allir eru voða stoltir af honum. Í tilefni þess ætlum við út að borða í kvöld.
Við erum öll farin að hlakka til þess að fara til Sydney á morgun! En við komum ekki heim fyrr en eftir helgi.

Bless í bili, bið að heilsa heim!
Kær kveðja, Eva María (a.k.a. E-Maíja).


Sveitaferð með meiru

Hæ, hæ.

Alltof langt síðan ég bloggaði seinast.
Núna er ég komin í íbúðina til Ella og Kristbjargar með allt mitt hafurtask. Nú sitja þau uppi með mig 24/7 alveg þangað til við komum heim (múhahahaha >:D).

Ég fór sem sagt í þessa ferð seinasta föstudag. Það var mjög gaman, bara skrýtið að vera svona einn að ferðast.
Fyrst var ferðinni heitið á Ferguson vineyard (vínekruna). Keyrslan þangað frá miðbænum tók um eina og hálfa klukkustund og við keyrðum í gegnum fallegan skóg með pálmatrjám og þéttum skógum. Þegar á vínekruna var komið var byrjað á því að snæða hádegismat, en hann var innifalinn. Mér var strax vísað til borðs með nokkrum Áströlum. Það var frekar vandró þar sem að ég sat á móti eldri hjónum og við hliðina á eldri manni og þau töluðu allan tímann um hestreiðar, en það eru veðhlaupadagar í gangi hérna í Melbourne.

Hádegismaturinn var hlaðborð með ýmsu. Það var ekkert merkt hvað væri hvað á hlaðborðinu svo ég tók bara það sem mér leist á. Í einni skálinni sýndist mér vera blómkál sem búið væri að hakka niður í eitthverja kássu. Svo sest ég við borðið með sessunautum mínum og við hefjum veisluna. Þá fæ ég mér heilan gaffal af þessari hvítu "blómkáls"kássu. Þá finn ég hvernig ég byrja að svitna, eldroðna, og fæ þessa þvílíku brunatilfinningu í munninn. Í staðinn fyrir að spýta útúr mér þá kyngdi ég þessu, eins og dömu sæmir, og svolgraði heila vatnsflösku á eftir (sem betur fer var ekki einungis vín á boðstólnum).

Vínekran var annars meiriháttar falleg og umhverfið í kring. Svo þegar við setjumst í rútuna aftur eftir skoðunarferð um vínekruna var ég ennþá svöng. Ég var með nammipoka með mér og ég gúffa í mig eins og mér væri borgað fyrir það..kannski til að eyða bragðinu eftir þetta hvíta gums...! Þá kemur þessi gamli sem sat við hliðina á mér, glotti, og sagði: ,,Did you like the lunch, eh?" og hló.

Þá var ferðinni heitið á dýraathvarfið, eða Healisville Sanctuary. Þá vorum við bara sex manns sem hoppuðum út á þeirri stöð. Þar var eldri maður sem tók á móti okkur, en hann er sjálfboðaliði og var okkar leiðsögumaður. Flestir vildu samt skoða garðinn á eigin vegum svo eftir varð bara ég og önnur stelpa sem er amerísk. Leiðsögumaðurinn var mjög fróður, en þeir þurfa víst að fara í gegnum 6 mánaða þjálfunartörn. Það var ótrúlega gaman að skoða dýrin þarna, og kóala voru allir vakandi og hressir og skoppandi milli trjágreina, algerar dúllur :) Leiðsögumanninum fannst mjög áhugavert að ég væri frá Íslandi. Hann spurði mig margra spurninga um Ísland, t.d. hvort það væru miklir skógar á Íslandi. Ég sagði honum þá hinn klassíska brandara ,,Hvað gerirðu ef þú ert villtur í skógi á Íslandi...? Þú stendur upp!" og útskýrði áður hversu lág trén eru á Íslandi. Leiðsögumaðurinn hló eins og vitleysingur en ameríska stelpan var bara eitt stórt spurningarmerki..

Að leiðsögutúrnum loknum var ferðinni heitið aftur heim og ameríska stelpan var mjög kammó svo við sátum saman í rútunni til baka. Mér var auðvitað ,,addað" strax á Facebook og í leiðinni spurði hún mig ,,Where is Iceland?". Og ég sagði að það væri við hliðina á Grænlandi. ,,What is Greenland?". Og ég sagði að það væri við hliðina á Kanada.. það samt sagði ekki mikið svo hún spurði mig hvort það væri jafnstórt og Ástralía. Þá hló ég óvart (kannski ekki fallegt af mér)... en hún opnaði þá kort af heiminum í iphone-inum sínum og ég benti á litla Ísland. Ég verð samt að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvar hvert fylki er í BNA, en hún sagðist vera frá Oklahoma og ég get ekki bent á það að korti.. svo ég get ekki mikið sagt!

Held að ég láti nægja í bili.

Það er búið að vera mega heitt undanfarna daga, allt annað en hefur verið.

Elli, Kristbjörg og Freyja biðja að heilsa en við erum öll farin að hlakka mikið til ferðarinnar til Sydney.

Kv., Eva.


Jamm og já

Hæjó.

Hmm, hvað skal segja, mínir æsispenntu blogglesendur.....?

Það eru mörg afmæli í nóvember! Til hamingju með daginn elsku Valur bróðir þann 1. nóv :)

Nú er ég nákvæmlega búin að vera hérna í mánuð... tíminn hefur liðið mjög hratt!

Það er búið að vera frekar kalt, allavega á kvöldin, seinustu daga. Það á að vera betra veður um helgina.

Ég fór í bókabúð um daginn sem er rétt hjá íbúðinni. Það er "second-hand" bókabúð og mér sýndist hún fyrst vera pinkulítil. Annað kom í ljós þegar ég fór inn í hana en hún var á mörgum hæðum og með fullt af deildum, t.d. var ein deild sem heitir ,,film scripts", dálítið kúl. Ég fór strax í ,,science" deildina og fann þar David Attenborough doðrant síðan árið 1979 :D Það voru margar áhugaverðar bækur þarna, margar um höfrunga.... en ég nenni nú ekki að fara að borga massíva yfirvigt á leiðinni heim.. hehe.

Í gær fórum ég, Kristbjörg, Freyja og vinafólk Ella og Kristbjargar á pönnukökuhús þar sem við smökkuðum alvöru pönnukökur. Elli er að vinna í heimaprófi þessa dagana og það er líka mikið að gera hjá Kristbjörgu. Þau eru bæði rosa dugleg. Freyja er líka dugleg á leikskólanum og það er svo sætt að hún á þar góða vinkonu sem henni þykir greinilega vænt um.

Í dag fór ég niður í bæ að kaupa mér miða í pakkaferð: sveitaferð sem fer um vínhéruð hérna rétt f. utan borgina og svo verður farið í ,,wildlife sanctuary" (man ómögulega hvað það heitir á íslensku). Ég vona að það verði gaman. 

Svo erum við búin að kaupa miða til Sydney í næstu viku. Hlakka mjög til þess að fara þangað.

Annars er lítið að frétta .. 

Bið að heilsa í bili.


Höfundur

Eva María Guðmundsdóttir
Eva María Guðmundsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband